Viðgerð á blog.is lokið

Nú fyrir stuttu lauk viðamikilli viðgerð á blog.is. Þar með á útlit bloggsíðna að lagast sjálfkrafa. Þetta þýðir m. a. að toppmyndir birtast á ný, höfundarmyndir birtast á ný í fullri stærð, talning á heimsóknum birtist á ný, bloggvinir birtast , tónlistarspilarar verða virkir og sama gildir um myndir og myndbönd.

Þess ber þó að geta, að þeir sem hafa gert breytingar á útliti síðu sinnar síðan bilunin átti sér stað halda þeim stillingum. Þetta á við ef fólk hefur skipt um hausmynd eða valið nýtt útlitsþema.

Forráðamenn blog.is vilja nota tækifærið og þakka ykkur öllum hversu vel þið brugðust við öllum þeim óþægindum sem þessi bilun hafði í för með sér. Bilunin reyndist miklu afdrifaríkari en við áttuðum okkur á í upphafi. Leita þurfti til sérfræðinga erlendis til að endurheimta gögnin sem m. a. skýrir hversu langan tíma viðgerðin tók.

En nú á að vera komin betri tíð með blóm í haga Smile.

Forráðamenn blog.is


Aðgerðir vegna bilunar

Eins og bloggarar hafa eflaust tekið eftir varð bilun í vélbúnaði blog.is sl. mánudagskvöld. Þá bilaði svonefnd diskastæða, sem er sérstök gagnageymsla með tólf hörðum diskum. Sú stæða var þannig upp sett að ef einn eða fleiri diskar bila á það ekki að koma að sök, en svo virtist sem tíu af tólf diskum hafi bilað samtímis eða búnaðurinn sem stýrir þeim.

Á þessum diskum voru geymdar útlitsstillingar bloggara, síðusnið, toppmyndir, lög í tónlistarspilurum, myndskeið og myndir í albúmum. Að svo stöddu höfum við ekki ástæðu til að ætla að gögnin séu glötuð, en það kemur væntanlega í ljós í dag eða á morgun.

Ef gögnin eru í lagi munum við lesa þau inn í kerfið aftur og þá lagast flest það sem úr lagi hefur færst. Þeir bloggarar sem ekki vilja bíða eftir því geta þó gripið til ýmissa aðgerða til að færa blogg sín í samt horf.

Útlit
Eins og sagði voru bloggþemu geymd á diskunum og eru því sum glötuð, en af öðrum eru til eldri gerðir. Unnið er að því að lagfæra þau þemu sem eru löskuð og einnig hefur verið búið til nýtt þema fyrir þá sem vilja skipta.

Toppmynd
Líkt og aðrar myndir notenda voru toppmyndir (myndir í haus bloggsíðu) vistaðar á diskunum og því ekki aðgengilegar sem stendur. Fólk getur bætt nýrri toppmynd við eða beðið eftir því að þær verði endurheimtar, en ef fólk er búið að setja nýja toppmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju.

Höfundarmynd
Það tókst að endurheimta velflestar höfundamyndir, en ekki í fullri stærð, þ.e. sú mynd sem notuð í dag er smámyndin svonefnda og kemur því sumstaðar ekki vel úr á höfundarsíðu. Ef fólk les inn nýja höfundarmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju

Heimsóknir
Talning á heimsóknum á bloggsíður hefur ekkert raskast en síðueiningin sem birtir talninguna er ekki sjálfgefin og því þarf fólk að bæta henni við. Það er gert með því að fara inn í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Heimsókna box".

Bloggvinir
Engin röskun var á bloggvinalistanum, en líkt og með Heimsóknaboxið er bloggvinalistinn ekki sjálfgefinn. Hann er settur inn með því að fara í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Bloggvinir".

Tónlistarspilarinn
Tónlistarspilarinn datt víða út, en einfalt er að bæta honum við aftur. Sá hængur er á að lögin sem voru í honum hjá hverjum og einum eru föst á biluðu diskunum og því þarf fólk að bæta nýjum lögum við í spilarann ef það vill að hann birtist.

Myndir og myndbönd
Eins og getið er voru myndir notenda og myndbönd vistuð á diskunum biluðu og ekki ljóst hvort nokkuð af því er glatað. Fólk getur byrjað að setja myndir og myndbönd inn aftur, en síðan myndu gömlu myndirnar og myndböndin bætast við eftir því sem miðar að ná gögnunum af diskunum.

Starfsmenn blog.is.

Bilun í diskum

Bilun varð í gærkvöldi í diskastæðu blog.is, en á þeirri stæðu, sem er röð tölvudiska, eru geymdar myndir bloggara og ýmsar stillingar varðandi útlit bloggs þeirra. Á meðan viðgerðarmenn glíma við bilunina  hefur bloggið verið opnað að hluta, en hægt er að lesa textann í bloggfærslum sem stendur og sumar myndir birtast.

Sem stendur er ekki er vitað til þess að nein gögn hafi glatast, en þær myndir sem vantar og stillingar varðandi útlit munu væntanlega detta inn eftir því sem viðgerð miðar áfram.


Sendu skilaboð til bloggvina

Nú er hægt að senda skilaboð til bloggvina á blog.is með því að smella á tengilinn Senda skilaboð í stjórnborðinu eða í bloggvinavalmyndinni.

Á síðunni sem kemur upp er hægt að skrifa boð til bloggvinar eða bloggvina. Hægt er að senda skilaboð til allra bloggvina í einu með því að smella á Velja alla neðst til hægri á síðunni.

Sá sem skilaboðin eru ætluð fær þá tölvupóst með þeim og þau birtast í stjórnborði hans. Hægt er að afþakka slík skilaboð alfarið í Stillingar / Tilkynningar.


Umræðuvöktun

Framvegis geta bloggarar fylgst með umræðum sem þeir hafa tekið þátt í á bloggsíðum með því að fá tölvupóst í hvert sinn sem skrifuð er athugasemd við viðkomandi bloggfærslu eða séð þær í stjórnborði sínu.

Við athugasemdir hverrar færslu er nú möguleiki á að skrá sig í og úr vakt fyrir umræðurnar við færsluna (hakað við "Vakta athugasemdir við þessa færslu"). Þegar vakt hefur verið hafin eru sendar tilkynningar í tölvupósti í hvert skipti sem ný athugasemd er skráð en hægt er að búa svo um hnútana að þær birtist einungis í stjórnborðinu (á síðunni Stillingar/Tilkynningar).

Þessi þjónusta fór af stað án þess að notendur fengju tilkynningu um hana í tæka tíð og biðjum við velvirðingar á því.

Bilun í talningakerfi 5. apríl

Vegna bilunar í vélbúnaði stöðvuðust heimsóknatalningar á blog.is milli kl. 16:10 og 21:30 laugardaginn 5. apríl. Gestir, innlit og flettingar eru þ.a.l. vantalin á mörgum bloggsíðum þennan dag.

Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa valdið notendum blog.is og á því hversu langan tíma það tók að bregðast við vandanum.


Breytingar á myndakerfi

Myndakerfinu á blog.is hefur verið breytt nokkuð og nú geta notendur meðal annars unnið frekar með myndir sínar, snúið þeim og klippt til svo dæmi séu tekin.

Þegar farið er inn á myndasíðuna í stjórnborðinu og smellt á Myndir, birtist listi yfir albúm, bæði á miðri síðunni sjálfri og líka vinstra megin. Hægt er að sýsla með albúm með því að smella á Breyta og þegar inn í albúmið er komið birtist skipanalína ofan við það og þar er meðal annars tengillinn Stillingar albúms. Smelltu á hann til að breyta heiti albúms og ýmsum stillingum varðandi það.

Myndum er bætt við með því að smella á Bæta við myndum. Ef ekkert albúm er valið fer myndin í albúmið Óflokkað.

Þegar myndin er komin inn er hægt að sýsla með hana með því að smella á breyta og í skipanalínu síðunnar sem kemur upp er hægt að sýsla frekar með myndina, snúa henni, minnka hana og klippa til (crop). Einnig er hægt að raða myndum í albúmi með því að draga þær til og á sama hátt má færa myndir milli albúma.

Aukið öryggi

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á blog.is til að auka öryggi notenda:

Þegar beðið er um breytingu á netfangi á stillingarsíðu notenda er sendur tölvupóstur með staðfestingarkóða á nýja netfangið og skilaboð varðandi óskina um breytingu á það gamla. Netfanginu er ekki breytt fyrr en staðfestingarkóðinn hefur verið sleginn inn á umsjónarsíðunni. Þegar breytingin á sér stað eru aftur send skilaboð á gamla netfangið til að segja að það sé ekki lengur virkt.

Þegar lykilorði er breytt er sendur tölvupóstur með skilaboðum þar að lútandi á netfang notandans.

Breytingar á netföngum eru skráðar til að geta brugðist við ef kvartanir berast.

Girt hefur verið fyrir að hægt sé að setja JavaScript inn í athugasemdir og ekki er hægt að setja iframe- og object-tög.


Breytingar og viðbætur

Ágætu bloggarar.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á blog.is.

Meira myndapláss Myndapláss allra notenda blog.is hefur verið stækkað um 100MB. Þá munu nýir notendur fá 100MB myndapláss við skráningu.

Tenglalistar Einfaldara er að sýsla með tenglalista en áður var, auðveldara að stofna nýja og eins að bæta í þá vefslóðum og lýsingu. Hægt er að raða tenglum á lista með þrí að draga þá til og líka hægt að draga þá á milli flokka, en tenglalistar eru komnir með sér síðu í stjórnborðinu.

Margar bloggsíður á kennitölu Notendur geta nú skráð fleiri en eitt blogg á sömu kennitölu. Þannig getur notandi með bloggsíðuna eftir.blog.is líka skrá síðuna undan.blog.is á á sömu kennitölu. Ef viðkomandi hyggst skrá annað blogg á kennitölu sína ber hann sig að eins og hann sé að skrá nýtt blogg. Athugið að nota verður sama netfang og notað var við skráningu á fyrsta bloggi kennitölu.

Greitt fyrir auglýsingaleysi Á stillingasíðu stjórnborðs er nú að finna tengilinn Auglýsingar. Þegar smellt er á hann getur viðkomandi greitt fyrir að bloggsíða hans verði auglýsingalaus. Hægt er að kaupa allt að ár fram í tímann og kostar hver mánuður 300 kr., en mánuður er talinn frá kaupdegi til sama dags í næsta mánuði á eftir.

Læst blogg Nú birtist tengillinn Senda höfundi ósk um aðgang á bloggum sem læst hefur verið með lykilorði. Þeir sem hug hafa á að fá aðgang að viðkomandi bloggi geta því sent umráðamanni þess tölvupóst og beðið um að fá lykilorð sent.


Auglýsingar á blog.is

Þegar blog.is var hleypt af stokkunum var það með það að leiðarljósi að vefurinn myndi standa undir sér. Því var gert ráð fyrir tveimur auglýsingum sem yrðu utan við bloggsíðu notenda, þ.e. önnur auglýsingin yrði í haus fyrir ofan síðuna og hin við jaðar skjásins hægra megin við síðuna. Framan af var það líka svo, þ.e. auglýsing hægra megin við síðuna og önnur í hausnum.

Þegar útlit mbl.is var endurhannað í haust var ákveðið að minnka hausinn yfir bloggsíðum, meðal annars með það í huga að gefa síðu bloggarans meira vægi, og þá var auglýsingin þar tekin út. Engin breyting varð á auglýsingaplássinu hægra megin þó að þar hafi reyndar ekki verið auglýsing frá því í apríl sl.

Í ljósi athugasemda sem borist hafa blasir við að einhverjir bloggarar hafa ekki áttað sig á þessu og beðist er velvirðingar á því ef það hefur komið einhverjum óþægilega á óvart. Ekki stendur til að selja auglýsingapláss inni á bloggsíðunum sjálfum.

Með kveðju,

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband