Færsluflokkur: Bloggar

Nýr bloggflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Nú verða sveitarstjórnarkosningar haldnar 29. maí næstkomandi og því ekki seinna vænna að stofna sérstakan bloggflokk fyrir þær. Við vonum að sem flestir notfæri sér hann svo að úr verði bæði lífleg og málefnaleg umræða í tengslum við kosningarnar!


Betri leit á blog.is

Virkjuð hefur verið ný leitarvél á blog.is sem auðveldar lesendum efnisleit, en hún leitar í öllum bloggfærslum sem birtar hafa verið á blog.is. Leitin er aðgengileg í nýjum leitarglugga efst á upphafssíðu bloggsins. Auk þess að birta bloggfærslur birtir leitarvélin bloggara sem finnast. Alltaf er leitað í öllum færslum frá upphafi, en hægt er að einskorða leitina við daginn í dag, síðustu sjö eða síðustu þrjátíu daga. Leitin byggir á leitarvélinni Sphinx sem er afar hraðvirk og þægileg í notkun.

Við hvetjum ykkur ágætu bloggarar til að prófa leitina. Allar ábendingar eru mjög vel þegnar—komið með endilega með þær hér á kerfisblogginu.


Myndablogg

Okkur berast alltaf annað slagið fyrirspurnir um hvort ekki sé hægt að senda myndir á bloggið beint úr farsímanum. Þetta væri skemmtilegur möguleiki til að hafa og höfum við því kannað málið nokkrum sinnum. Það hefur þó strandað á tæknilegum atriðum sem tengjast móttöku MMS-skeyta frá símafyrirtækjunum.

Að vinna með tölvupóst er tæknilega mun þægilegra. Nýlega komst ég að því að myndaþjónustan flickr býður upp á sjálfkrafa móttöku mynda í gegnum tölvupóst, og sem meira er, getur sent myndir sjálfkrafa áfram á blogg. Hér að neðan verður farið í gegnum það hvernig þetta er sett upp hér á blog.is.

1. Þú þarft að hafa flickr-aðgang. Til að stofna slíkan má fara í Create Account á forsíðu flickr.

2. Skráð þig inn á flickr og veldu You > Your Account í valmyndinni efst á síðunni

3. Opna flipann Email. Þar smellir þú á create an upload-to-flickr e-mail address.

4. Netfangið sem þú færð upp má nota til að senda myndir í gegnum tölvupóst beint á flickr svæðið. Gættu að því að halda netfanginu leyndu svo hver sem er geti ekki sent mynd inn í þínu nafni.

5. Farð nú til baka á Email-síðuna. Ef þú sérð ekki netfangið sem var verið að búa til þarftu að endurhlaða síðuna, t.d. með því að smella á F5. Smelltu svo á tell us a little about the blog(s) you want to upload to til að segja flickr hvernig tala eigi við blog.is.

6. Fyrsta skrefið í blogguppsetningunni er einfald, við höldum beint áfram:

7. Veljið MetaWeblogAPI sem samskiptamátann.

8. Sláið inn API-slóðina fyrir blog.is í reitinn API Endpoint og notandanafnið ykkar og lykilorðið fyrir neðan. API-slóðin er

http://NOTANDANAFN.blog.is/api/metaWeblogAPI.xml

þar sem þið setjið notandanafnið ykkar inn á réttan stað.

9. Veljið blogg á bloggsvæðinu ykkar sem birta á myndirnar - yfirleitt er aðeins um eitt að velja.

10. Staðfestið stillingarnar sem settar hafa verið inn. Þarna þarf alla jafna ekki að breyta neinu.

11. Bloggið er tilbúið til notkunar! Ef smellt er á create a custom posting template fæst upp síða þar sem hægt er að sérsníða hvernig myndirnar birtast á blogginu, en sé smellt á return to your blogs page má stilla bloggtenginguna á einfaldari hátt.

12. Svona er síðan þar sem hægt að stilla bloggtenginguna, smellið á Settings til þess. Þar má einnig prófa sendingu yfir á bloggið til að sjá hvort ekki sé allt í góðu lagi.

13. Sé farið aftur á Email-síðuna (t.d. gegnum You > Your Account eins og í byrjun) sjást netföngin tvö sem flickr býður upp á. Við höfum mestan áhuga á því síðara, því það gerir okkur kleyft að senda myndir beint á bloggið, bæði úr tölvu og úr farsíma.

14. Nú er bara að taka upp símann, taka mynd og senda hana sem myndskilaboð á bloggnetfangið frá flickr. Þægilegast er að vista netfangið inn í símaskrána til að þurfa ekki að slá það inn í hvert skipti.

 

...og eftir skamma stund:

Góða skemmtun!

 


Öryggisafrit með færslum og myndum

Nú gefst notendum færi á að sækja öryggisafrit með öllum færslum og myndum sem þeir hafa sett á bloggin sín. Okkur er umhugað um öryggi notenda og í kjölfar óþæginda í júlí vegna bilunar í skráarþjóni höfum við gert enn frekari öryggisráðstafanir og er þessi möguleiki liður í því.

Að taka öryggisafrit er einfalt! Notendur fara á stjórnborð sitt og undir Blogg -> Öryggisafrit er hægt að sækja ZIP skrá sem inniheldur allar færslur með athugasemdum og myndum.


Aðgerðir vegna bilunar

Eins og bloggarar hafa eflaust tekið eftir varð bilun í vélbúnaði blog.is sl. mánudagskvöld. Þá bilaði svonefnd diskastæða, sem er sérstök gagnageymsla með tólf hörðum diskum. Sú stæða var þannig upp sett að ef einn eða fleiri diskar bila á það ekki að koma að sök, en svo virtist sem tíu af tólf diskum hafi bilað samtímis eða búnaðurinn sem stýrir þeim.

Á þessum diskum voru geymdar útlitsstillingar bloggara, síðusnið, toppmyndir, lög í tónlistarspilurum, myndskeið og myndir í albúmum. Að svo stöddu höfum við ekki ástæðu til að ætla að gögnin séu glötuð, en það kemur væntanlega í ljós í dag eða á morgun.

Ef gögnin eru í lagi munum við lesa þau inn í kerfið aftur og þá lagast flest það sem úr lagi hefur færst. Þeir bloggarar sem ekki vilja bíða eftir því geta þó gripið til ýmissa aðgerða til að færa blogg sín í samt horf.

Útlit
Eins og sagði voru bloggþemu geymd á diskunum og eru því sum glötuð, en af öðrum eru til eldri gerðir. Unnið er að því að lagfæra þau þemu sem eru löskuð og einnig hefur verið búið til nýtt þema fyrir þá sem vilja skipta.

Toppmynd
Líkt og aðrar myndir notenda voru toppmyndir (myndir í haus bloggsíðu) vistaðar á diskunum og því ekki aðgengilegar sem stendur. Fólk getur bætt nýrri toppmynd við eða beðið eftir því að þær verði endurheimtar, en ef fólk er búið að setja nýja toppmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju.

Höfundarmynd
Það tókst að endurheimta velflestar höfundamyndir, en ekki í fullri stærð, þ.e. sú mynd sem notuð í dag er smámyndin svonefnda og kemur því sumstaðar ekki vel úr á höfundarsíðu. Ef fólk les inn nýja höfundarmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju

Heimsóknir
Talning á heimsóknum á bloggsíður hefur ekkert raskast en síðueiningin sem birtir talninguna er ekki sjálfgefin og því þarf fólk að bæta henni við. Það er gert með því að fara inn í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Heimsókna box".

Bloggvinir
Engin röskun var á bloggvinalistanum, en líkt og með Heimsóknaboxið er bloggvinalistinn ekki sjálfgefinn. Hann er settur inn með því að fara í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Bloggvinir".

Tónlistarspilarinn
Tónlistarspilarinn datt víða út, en einfalt er að bæta honum við aftur. Sá hængur er á að lögin sem voru í honum hjá hverjum og einum eru föst á biluðu diskunum og því þarf fólk að bæta nýjum lögum við í spilarann ef það vill að hann birtist.

Myndir og myndbönd
Eins og getið er voru myndir notenda og myndbönd vistuð á diskunum biluðu og ekki ljóst hvort nokkuð af því er glatað. Fólk getur byrjað að setja myndir og myndbönd inn aftur, en síðan myndu gömlu myndirnar og myndböndin bætast við eftir því sem miðar að ná gögnunum af diskunum.

Starfsmenn blog.is.

Bilun í diskum

Bilun varð í gærkvöldi í diskastæðu blog.is, en á þeirri stæðu, sem er röð tölvudiska, eru geymdar myndir bloggara og ýmsar stillingar varðandi útlit bloggs þeirra. Á meðan viðgerðarmenn glíma við bilunina  hefur bloggið verið opnað að hluta, en hægt er að lesa textann í bloggfærslum sem stendur og sumar myndir birtast.

Sem stendur er ekki er vitað til þess að nein gögn hafi glatast, en þær myndir sem vantar og stillingar varðandi útlit munu væntanlega detta inn eftir því sem viðgerð miðar áfram.


Sendu skilaboð til bloggvina

Nú er hægt að senda skilaboð til bloggvina á blog.is með því að smella á tengilinn Senda skilaboð í stjórnborðinu eða í bloggvinavalmyndinni.

Á síðunni sem kemur upp er hægt að skrifa boð til bloggvinar eða bloggvina. Hægt er að senda skilaboð til allra bloggvina í einu með því að smella á Velja alla neðst til hægri á síðunni.

Sá sem skilaboðin eru ætluð fær þá tölvupóst með þeim og þau birtast í stjórnborði hans. Hægt er að afþakka slík skilaboð alfarið í Stillingar / Tilkynningar.


Umræðuvöktun

Framvegis geta bloggarar fylgst með umræðum sem þeir hafa tekið þátt í á bloggsíðum með því að fá tölvupóst í hvert sinn sem skrifuð er athugasemd við viðkomandi bloggfærslu eða séð þær í stjórnborði sínu.

Við athugasemdir hverrar færslu er nú möguleiki á að skrá sig í og úr vakt fyrir umræðurnar við færsluna (hakað við "Vakta athugasemdir við þessa færslu"). Þegar vakt hefur verið hafin eru sendar tilkynningar í tölvupósti í hvert skipti sem ný athugasemd er skráð en hægt er að búa svo um hnútana að þær birtist einungis í stjórnborðinu (á síðunni Stillingar/Tilkynningar).

Þessi þjónusta fór af stað án þess að notendur fengju tilkynningu um hana í tæka tíð og biðjum við velvirðingar á því.

Breytingar og viðbætur

Ágætu bloggarar.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á blog.is.

Meira myndapláss Myndapláss allra notenda blog.is hefur verið stækkað um 100MB. Þá munu nýir notendur fá 100MB myndapláss við skráningu.

Tenglalistar Einfaldara er að sýsla með tenglalista en áður var, auðveldara að stofna nýja og eins að bæta í þá vefslóðum og lýsingu. Hægt er að raða tenglum á lista með þrí að draga þá til og líka hægt að draga þá á milli flokka, en tenglalistar eru komnir með sér síðu í stjórnborðinu.

Margar bloggsíður á kennitölu Notendur geta nú skráð fleiri en eitt blogg á sömu kennitölu. Þannig getur notandi með bloggsíðuna eftir.blog.is líka skrá síðuna undan.blog.is á á sömu kennitölu. Ef viðkomandi hyggst skrá annað blogg á kennitölu sína ber hann sig að eins og hann sé að skrá nýtt blogg. Athugið að nota verður sama netfang og notað var við skráningu á fyrsta bloggi kennitölu.

Greitt fyrir auglýsingaleysi Á stillingasíðu stjórnborðs er nú að finna tengilinn Auglýsingar. Þegar smellt er á hann getur viðkomandi greitt fyrir að bloggsíða hans verði auglýsingalaus. Hægt er að kaupa allt að ár fram í tímann og kostar hver mánuður 300 kr., en mánuður er talinn frá kaupdegi til sama dags í næsta mánuði á eftir.

Læst blogg Nú birtist tengillinn Senda höfundi ósk um aðgang á bloggum sem læst hefur verið með lykilorði. Þeir sem hug hafa á að fá aðgang að viðkomandi bloggi geta því sent umráðamanni þess tölvupóst og beðið um að fá lykilorð sent.


Stuðningur við RSS-innlestur

Nú geta notendur á blog.is loks sett inn RSS-strauma af sínum uppáhaldsvefjum á bloggsíðuna sína. Til þess þarf að gera eftirfarandi:

  1. Stofna lista af gerðinni "RSS-straumur" með því að fara í "Tenglar og listar" í stjórnborðinu, og setja í listann þær RSS-slóðir sem maður vill birta efni úr á síðunni. Sé þess óskað er hægt að stofna fleiri en einn lista og þannig flokka RSS-straumana eftir innihaldi þeirra.
  2. Fara í Stillingar => Útlit => Síðueiningar og koma síðueiningunni "RSS-box" fyrir þar sem maður vill.
Hægt er að stilla hámarksfjölda færslna sem birtast úr hverjum RSS-straumi. Annars vegar er hægt að tilgreina þetta fyrir hverja slóð fyrir sig þegar henni er bætt á listann, og hins vegar er hægt að stilla síðueininguna "RSS-box" með því að smella á hana á síðueiningasíðunni í stjórnborðinu (eftir að búið er að koma henni fyrir) og breyta svo gildinu við "Hámarksfjöldi sýndra færslna í RSS-straumi". Ef hámark er tilgreint á báðum stöðum, er það lægri talan sem gildir.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband