Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Umræðuvöktun

Framvegis geta bloggarar fylgst með umræðum sem þeir hafa tekið þátt í á bloggsíðum með því að fá tölvupóst í hvert sinn sem skrifuð er athugasemd við viðkomandi bloggfærslu eða séð þær í stjórnborði sínu.

Við athugasemdir hverrar færslu er nú möguleiki á að skrá sig í og úr vakt fyrir umræðurnar við færsluna (hakað við "Vakta athugasemdir við þessa færslu"). Þegar vakt hefur verið hafin eru sendar tilkynningar í tölvupósti í hvert skipti sem ný athugasemd er skráð en hægt er að búa svo um hnútana að þær birtist einungis í stjórnborðinu (á síðunni Stillingar/Tilkynningar).

Þessi þjónusta fór af stað án þess að notendur fengju tilkynningu um hana í tæka tíð og biðjum við velvirðingar á því.

Breytingar á myndakerfi

Myndakerfinu á blog.is hefur verið breytt nokkuð og nú geta notendur meðal annars unnið frekar með myndir sínar, snúið þeim og klippt til svo dæmi séu tekin.

Þegar farið er inn á myndasíðuna í stjórnborðinu og smellt á Myndir, birtist listi yfir albúm, bæði á miðri síðunni sjálfri og líka vinstra megin. Hægt er að sýsla með albúm með því að smella á Breyta og þegar inn í albúmið er komið birtist skipanalína ofan við það og þar er meðal annars tengillinn Stillingar albúms. Smelltu á hann til að breyta heiti albúms og ýmsum stillingum varðandi það.

Myndum er bætt við með því að smella á Bæta við myndum. Ef ekkert albúm er valið fer myndin í albúmið Óflokkað.

Þegar myndin er komin inn er hægt að sýsla með hana með því að smella á breyta og í skipanalínu síðunnar sem kemur upp er hægt að sýsla frekar með myndina, snúa henni, minnka hana og klippa til (crop). Einnig er hægt að raða myndum í albúmi með því að draga þær til og á sama hátt má færa myndir milli albúma.

Aukið öryggi

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á blog.is til að auka öryggi notenda:

Þegar beðið er um breytingu á netfangi á stillingarsíðu notenda er sendur tölvupóstur með staðfestingarkóða á nýja netfangið og skilaboð varðandi óskina um breytingu á það gamla. Netfanginu er ekki breytt fyrr en staðfestingarkóðinn hefur verið sleginn inn á umsjónarsíðunni. Þegar breytingin á sér stað eru aftur send skilaboð á gamla netfangið til að segja að það sé ekki lengur virkt.

Þegar lykilorði er breytt er sendur tölvupóstur með skilaboðum þar að lútandi á netfang notandans.

Breytingar á netföngum eru skráðar til að geta brugðist við ef kvartanir berast.

Girt hefur verið fyrir að hægt sé að setja JavaScript inn í athugasemdir og ekki er hægt að setja iframe- og object-tög.


Breytingar og viðbætur

Ágætu bloggarar.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á blog.is.

Meira myndapláss Myndapláss allra notenda blog.is hefur verið stækkað um 100MB. Þá munu nýir notendur fá 100MB myndapláss við skráningu.

Tenglalistar Einfaldara er að sýsla með tenglalista en áður var, auðveldara að stofna nýja og eins að bæta í þá vefslóðum og lýsingu. Hægt er að raða tenglum á lista með þrí að draga þá til og líka hægt að draga þá á milli flokka, en tenglalistar eru komnir með sér síðu í stjórnborðinu.

Margar bloggsíður á kennitölu Notendur geta nú skráð fleiri en eitt blogg á sömu kennitölu. Þannig getur notandi með bloggsíðuna eftir.blog.is líka skrá síðuna undan.blog.is á á sömu kennitölu. Ef viðkomandi hyggst skrá annað blogg á kennitölu sína ber hann sig að eins og hann sé að skrá nýtt blogg. Athugið að nota verður sama netfang og notað var við skráningu á fyrsta bloggi kennitölu.

Greitt fyrir auglýsingaleysi Á stillingasíðu stjórnborðs er nú að finna tengilinn Auglýsingar. Þegar smellt er á hann getur viðkomandi greitt fyrir að bloggsíða hans verði auglýsingalaus. Hægt er að kaupa allt að ár fram í tímann og kostar hver mánuður 300 kr., en mánuður er talinn frá kaupdegi til sama dags í næsta mánuði á eftir.

Læst blogg Nú birtist tengillinn Senda höfundi ósk um aðgang á bloggum sem læst hefur verið með lykilorði. Þeir sem hug hafa á að fá aðgang að viðkomandi bloggi geta því sent umráðamanni þess tölvupóst og beðið um að fá lykilorð sent.


Auglýsingar á blog.is

Þegar blog.is var hleypt af stokkunum var það með það að leiðarljósi að vefurinn myndi standa undir sér. Því var gert ráð fyrir tveimur auglýsingum sem yrðu utan við bloggsíðu notenda, þ.e. önnur auglýsingin yrði í haus fyrir ofan síðuna og hin við jaðar skjásins hægra megin við síðuna. Framan af var það líka svo, þ.e. auglýsing hægra megin við síðuna og önnur í hausnum.

Þegar útlit mbl.is var endurhannað í haust var ákveðið að minnka hausinn yfir bloggsíðum, meðal annars með það í huga að gefa síðu bloggarans meira vægi, og þá var auglýsingin þar tekin út. Engin breyting varð á auglýsingaplássinu hægra megin þó að þar hafi reyndar ekki verið auglýsing frá því í apríl sl.

Í ljósi athugasemda sem borist hafa blasir við að einhverjir bloggarar hafa ekki áttað sig á þessu og beðist er velvirðingar á því ef það hefur komið einhverjum óþægilega á óvart. Ekki stendur til að selja auglýsingapláss inni á bloggsíðunum sjálfum.

Með kveðju,

Nýtt á Blog.is

Upplýsingar um heimsóknir á bloggsíður á blog.is eru nú greinilegri og betur fram settar.

Þegar farið er inn í stjórnborðið sést ofarlega síðunni liðurinn Heimsóknir og ef smellt er á hann sjást heimsóknartölur í myndrænni framsetningu. Hægt er að velja graf yfir flettingar, innlit, staka gesti eða IP-tölur og eins má velja mismunandi tímabil.

Með kveðju,

Samþykktarferli fyrir athugasemdir

Nú er hægt að óska eftir því að athugasemdir við bloggfærslur birtist ekki fyrr en þær hafa verið samþykktar af höfundi færslunnar. Við skráningu athugasemda birtast þá skilaboðin Athugasemdin mun birtast eftir að höfundur færslunnar samþykkir hana. Í framhaldi fær höfundur færslunnar tilkynningu í tölvupósti um athugasemdina sem inniheldur krækjur til að staðfesta eða hafna athugasemdinni á fljótlegan máta.

Þessa stillingu má virkja á stillingasíðunni fyrir blogg, Stillingar / Blogg í stjórnborðinu, með því að velja Birta athugasemdir aðeins eftir að ég hef samþykkt þær.

Þetta nýja fyrirkomulag virkar einnig fyrir albúm sem tengd eru bloggum sem krefjast samþykktar.

Í tengslum við þessa viðbót hefur viðmót fyrir athugasemdir í stjórnborðinu verið bætt til muna. Þar birtist nú samþjappað yfirlit yfir athugasemdir, flokkað eftir færslum eða myndum. Þar má samþykkja, hafna, birta eða fela athugasemdir. Listana má finna á síðunum Blogg / Athugasemdir og Myndir / Athugasemdir.


Breytingartillögur í leiðréttingapúkanum

Við vekjum athygli á því að í nýtilkomnum leiðréttingapúka á blog.is er ekki einungis hægt að leita uppi villur heldur einnig fá tillögur að leiðréttingum. Það er gert með því að smella á undirstrikuðu orðin.

 puki


Leiðréttingarpúki og ítarlegri talning

Skráðum notendum blog.is er nú boðin sú þjónusta að láta leiðréttingarpúka lesa bloggfærslur yfir. Til að virkja púkann er smellt á hnappinn Púki sem er að finna á síðunni þar sem bloggfærslurnar eru skrifaðar. Púkinn merkir með rauðu þau orð sem hann telur að séu rangt stafsett. Innsetning púkans er í samvinnu við Friðrik Skúlason.

Að ósk margra bloggnotenda hafa upplýsingar um umferð á bloggsíður verið töluvert endurbættar. Nú eru eftirfarandi upplýsingar sýndar:

Flettingar:

  • í dag
  • síðastliðinn sólarhring
  • síðastliðna viku (þ.e. síðustu 7 heila daga)
  • frá upphafi (að hluta áætlað út frá gamla heimsóknakerfinu)
Aðrar upplýsingar:
  • Innlit í dag
  • Innlit síðastliðna viku
  • Gestir í dag
  • Einkvæmar IP-tölur í dag

Fletting á sér stað þegar tiltekinn notandi sækir einhverja síðu á viðkomandi bloggi.  Með innliti er átt við tiltekinn notanda sem skoðar eina eða fleiri síður á viðkomandi bloggi á innan við klukkustund. Með gesti er átt við tiltekinn notanda sem skoðar eina eða fleiri síður á viðkomandi bloggi á tilteknum degi.

Umferðaruppplýsingar eru nú uppfærðar á 3ja mínútna fresti (í stað 15 mín.áður).

Kveðja,
blog.is


Ruslathugasemdir og fréttatengingar

Nýverið var forminu til að senda inn athugasemdir breytt til þess að það virki í sem flestum vöfrum. Þetta hafði í för með sér að ruslvélmennum víðs vegar um heiminn tókst að setja inn miður skemmtilegar athugasemdir á blogg sem leyfðu óskráðum notendum að skrifa athugasemdir án staðfestingar netfangs. Til að sporna við þessu er nú nauðsynlegt fyrir óskráða notendur að svara einfaldri spurningu áður en athugasemd er send inn, leggja saman tvær tölur og setja útkomuna inn í svæðið "Ruslpóstvörn":

ruslaths

Tengingar bloggfærslna við fréttir á Mbl.is hafa verið notaðar mikið og stundum til að tengja óviðeigandi efni. Því höfum við sett á laggirnar kerfi til að merkja slíkar tengingar sem óviðeigandi. Tengingar eru merktar með því að smella á krækjuna sem birtist neðan við titil fréttar:

Tilkynningar sem berast eru síðan skoðaðar af starfsmönnum Mbl.is og fréttatengingar fjarlægðar ef þurfa þykir. Þess skal getið að einungis innskráðir notendur geta gert athugasemdir við tengingar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband