Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Breytingar á forsíðum blog.is og mbl.is

Í gær, 16. mars, var útliti forsíðu blog.is breytt og hún flutt af léninu mbl.is undir lénið blog.is. Á sama tíma var flipinn „Bloggið“ fjarlægður úr af forsíðu mbl.is og í staðinn settur fastur hnappur neðan við tenglana á sérvefi mbl.is efst í vinstra dálki. Jafnframt var lógó mbl.is tekið úr síðuhaus blog.is.

Boxið með efni af blog.is á miðri forsíðu mbl.is helst óbreytt, og fréttatengingar við bloggfærslur virka á sama hátt og áður. Engin áform eru um að breyta þessu, og skilmálar blog.is verða áfram þeir sömu.

Tilgangurinn með þessum breytingum er fyrst og fremst að skapa betri aðgreiningu milli þess efnis sem heyrir undir ritstjórnarlega ábyrgð Morgunblaðsins og annars efnis.


Breytingar á fréttabloggi

Frá og með 1. janúar næstkomandi verður einungis hægt að blogga um fréttir á mbl.is ef fullt nafn bloggara birtist á bloggsíðu hans. Bloggarar geta eftir sem áður bloggað undir stutt- eða gælunafni, en fullt nafn viðkomandi þarf að koma fram á höfundarsíðu til þess að möguleikinn að blogga um fréttir sé til staðar.

Sú breyting verður einnig á að blogg þeirra sem ekki eru með fullt nafn sýnilegt á höfundarsíðu mun ekki birtast á forsíðu blog.is eða á öðrum síðum mbl.is.

Þessi breyting er að ákvörðun ritstjórnar mbl.is, en einnig hafa borist tilmæli frá talsmanni neytenda. Á næstunni verður sendur póstur til bloggara með leiðbeiningum hvernig þeir geta birt fullt nafn á höfundarsíðu bloggsins.  Langstærstur hluti bloggara birtir þegar nafn sitt og því hefur þetta áhrif á lítinn hluta bloggara.

Nýr flokkur: Evrópumál

Í ljósi aukinnar umræðu um Evrópusambandið höfum við bætt við flokknum Evrópumál á blogginu.

Betri leit á blog.is

Virkjuð hefur verið ný leitarvél á blog.is sem auðveldar lesendum efnisleit, en hún leitar í öllum bloggfærslum sem birtar hafa verið á blog.is. Leitin er aðgengileg í nýjum leitarglugga efst á upphafssíðu bloggsins. Auk þess að birta bloggfærslur birtir leitarvélin bloggara sem finnast. Alltaf er leitað í öllum færslum frá upphafi, en hægt er að einskorða leitina við daginn í dag, síðustu sjö eða síðustu þrjátíu daga. Leitin byggir á leitarvélinni Sphinx sem er afar hraðvirk og þægileg í notkun.

Við hvetjum ykkur ágætu bloggarar til að prófa leitina. Allar ábendingar eru mjög vel þegnar—komið með endilega með þær hér á kerfisblogginu.


Fréttir frá Amnesty á bloggsíður

Ágætu bloggarar.

Við höfum bætt við fréttaboxi sem birtir fréttir frá Íslandsdeild Amnesty International. Hægt er að fara í Stjórnborð / Útlit / Síðustillingar og velja þar Fréttir frá Amnesty. Einingin birtir fyrirsagnir frá Amnesty og ef smellt er á er hægt að lesa viðkomandi frétt inn á vefsíðu Amnesty á Íslandi.

Umsjónarmenn blog.is.


Faðmlag til bloggvina

Bloggvinir geta nú sent hverjum öðrum faðmlag til að styrkja vináttu sín á milli. Þetta er gert á þann veg að notandi skráir sig inn og fer í framhaldi á bloggsíðu þess vinar sem senda á faðmlag. Í framhaldi er smellt svæðið þar sem sjá má lista yfir bloggvini og þar er valin aðgerðin að senda faðmlag.

Bloggvinurinn fær í framhaldi tölvupóst með skilaboðum um að hann hafi engið faðmlag. Ef óskað er eftir að senda faðmlag til baka er hægt að framkvæma það í þessum sama tölvupósti. Í stjórnborðinu er svo hægt að sjá alla þá sem sent hafa faðmlag og senda til baka.

Sýnum vinarhug okkar í verki og sendum hvort öðru faðmlag.

Umsjónarmenn blog.is


Ný bloggþemu

Kæru bloggarar,

Nýlega er búið að bæta nokkrum nýjum þemum við þau sem fyrir voru. Þessi þemu heita Cutline (undir Ný Þemu) tveggja og þriggja dálka, Listaverkið (undir Menning og Listir) og Sólar Shinra (undir Árstíðir). Hvetjum við notendur til að prófa þessi nýju þemu. Til stendur að halda áfram að bæta þemuúrvalið á næstu vikum


Viðgerð á blog.is lokið

Nú fyrir stuttu lauk viðamikilli viðgerð á blog.is. Þar með á útlit bloggsíðna að lagast sjálfkrafa. Þetta þýðir m. a. að toppmyndir birtast á ný, höfundarmyndir birtast á ný í fullri stærð, talning á heimsóknum birtist á ný, bloggvinir birtast , tónlistarspilarar verða virkir og sama gildir um myndir og myndbönd.

Þess ber þó að geta, að þeir sem hafa gert breytingar á útliti síðu sinnar síðan bilunin átti sér stað halda þeim stillingum. Þetta á við ef fólk hefur skipt um hausmynd eða valið nýtt útlitsþema.

Forráðamenn blog.is vilja nota tækifærið og þakka ykkur öllum hversu vel þið brugðust við öllum þeim óþægindum sem þessi bilun hafði í för með sér. Bilunin reyndist miklu afdrifaríkari en við áttuðum okkur á í upphafi. Leita þurfti til sérfræðinga erlendis til að endurheimta gögnin sem m. a. skýrir hversu langan tíma viðgerðin tók.

En nú á að vera komin betri tíð með blóm í haga Smile.

Forráðamenn blog.is


Aðgerðir vegna bilunar

Eins og bloggarar hafa eflaust tekið eftir varð bilun í vélbúnaði blog.is sl. mánudagskvöld. Þá bilaði svonefnd diskastæða, sem er sérstök gagnageymsla með tólf hörðum diskum. Sú stæða var þannig upp sett að ef einn eða fleiri diskar bila á það ekki að koma að sök, en svo virtist sem tíu af tólf diskum hafi bilað samtímis eða búnaðurinn sem stýrir þeim.

Á þessum diskum voru geymdar útlitsstillingar bloggara, síðusnið, toppmyndir, lög í tónlistarspilurum, myndskeið og myndir í albúmum. Að svo stöddu höfum við ekki ástæðu til að ætla að gögnin séu glötuð, en það kemur væntanlega í ljós í dag eða á morgun.

Ef gögnin eru í lagi munum við lesa þau inn í kerfið aftur og þá lagast flest það sem úr lagi hefur færst. Þeir bloggarar sem ekki vilja bíða eftir því geta þó gripið til ýmissa aðgerða til að færa blogg sín í samt horf.

Útlit
Eins og sagði voru bloggþemu geymd á diskunum og eru því sum glötuð, en af öðrum eru til eldri gerðir. Unnið er að því að lagfæra þau þemu sem eru löskuð og einnig hefur verið búið til nýtt þema fyrir þá sem vilja skipta.

Toppmynd
Líkt og aðrar myndir notenda voru toppmyndir (myndir í haus bloggsíðu) vistaðar á diskunum og því ekki aðgengilegar sem stendur. Fólk getur bætt nýrri toppmynd við eða beðið eftir því að þær verði endurheimtar, en ef fólk er búið að setja nýja toppmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju.

Höfundarmynd
Það tókst að endurheimta velflestar höfundamyndir, en ekki í fullri stærð, þ.e. sú mynd sem notuð í dag er smámyndin svonefnda og kemur því sumstaðar ekki vel úr á höfundarsíðu. Ef fólk les inn nýja höfundarmynd verður hún ekki yfirskrifuð þegar gögnin verða lesin inn að nýju

Heimsóknir
Talning á heimsóknum á bloggsíður hefur ekkert raskast en síðueiningin sem birtir talninguna er ekki sjálfgefin og því þarf fólk að bæta henni við. Það er gert með því að fara inn í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Heimsókna box".

Bloggvinir
Engin röskun var á bloggvinalistanum, en líkt og með Heimsóknaboxið er bloggvinalistinn ekki sjálfgefinn. Hann er settur inn með því að fara í stjórnborðið og þaðan í Stillingar /  Útlit / Síðueiningar. Þar er síðan hægt að velja eininguna "Bloggvinir".

Tónlistarspilarinn
Tónlistarspilarinn datt víða út, en einfalt er að bæta honum við aftur. Sá hængur er á að lögin sem voru í honum hjá hverjum og einum eru föst á biluðu diskunum og því þarf fólk að bæta nýjum lögum við í spilarann ef það vill að hann birtist.

Myndir og myndbönd
Eins og getið er voru myndir notenda og myndbönd vistuð á diskunum biluðu og ekki ljóst hvort nokkuð af því er glatað. Fólk getur byrjað að setja myndir og myndbönd inn aftur, en síðan myndu gömlu myndirnar og myndböndin bætast við eftir því sem miðar að ná gögnunum af diskunum.

Starfsmenn blog.is.

Bilun í diskum

Bilun varð í gærkvöldi í diskastæðu blog.is, en á þeirri stæðu, sem er röð tölvudiska, eru geymdar myndir bloggara og ýmsar stillingar varðandi útlit bloggs þeirra. Á meðan viðgerðarmenn glíma við bilunina  hefur bloggið verið opnað að hluta, en hægt er að lesa textann í bloggfærslum sem stendur og sumar myndir birtast.

Sem stendur er ekki er vitað til þess að nein gögn hafi glatast, en þær myndir sem vantar og stillingar varðandi útlit munu væntanlega detta inn eftir því sem viðgerð miðar áfram.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband