Nýjung á blog.is: myndbönd

Nýjum möguleika hefur verið bætt við blog.is kerfið, myndböndum. Nú gefst notendum kostur á að senda inn eigin myndbönd og birta þau með auðveldum hætti á blog vefjum sínum. Hægt er að sýsla með myndbönd undir flipanum Myndbönd á stjórnborðinu. Þegar myndband hefur verið sent inn tekur skamma stund að koma því yfir á birtanlegt form og geta notendur þá bætt myndböndum við blog færslu með því að smella á flash merkið.

Bloggvinir - nýjung á blog.is

bloggvinirÁ blog.is hefur verið bætt við nýju kerfi sem kallast Bloggvinir. Kerfið býður notendum að tengjast sín á milli, að gerast bloggvinir. Helsti kostur kerfisins er að mjög þægilegt er að hafa yfirsýn yfir blogga vina sinna og að flakka á milli þeirra. Að lokinni innskráningu birtist nýtt box, til hægri við innskráningarboxið, sem merkt er bloggvinir. Þar eru hnappar til að flakka á milli bloggvina, sem og valmynd sem birtir lista yfir þá. Í listanum kemur einnig fram hvort þeir hafi bætt við nýju efni síðan þú skoðaðir blogga þeirra síðast og hvort þeir eru innskráðir þá stundina.

Til að bæta við vinum er nauðsynlegt að vera skráð/ur inn. Nýjum vini er bætt við með því að opna blogg notanda og velja Bæta ... við í bloggvinavalmyndinni. Þá fær notandinn senda tilkynningu í tölvupósti um að hann þurfi að samþykkja þig. Vinurinn birtist ekki í valmyndinni fyrr en að samþykkt lokinni, en um leið og hann samþykkir færð þú tilkynningu í pósti.

Einfalt er að fylgjast með bloggvinum úr stjórnborðinu, en á forsíðu þess birtist listi yfir þá og nýjasta færsla hvers og eins. Innan stjórnborðsins er svo sérstakt vinastjórnborð, en þar sjást vinirnir á ítarlegri hátt. Þú getur einnig birt lista yfir vinina á blogginu þínu, en til þess þarf að setja inn síðueininguna Bloggvinir.


Síðueiningar, athugasemdir við myndir og fleira

Síðan sem notuð er til að raða upp síðueiningum hefur verið tekin í gegn. Þar birtist nú grind að útliti bloggsins og síðan er einfaldlega hægt að draga einingar með músinni á viðeigandi stað. Enn fremur er hægt að stilla einingar með því að smella á þær. Þið komist í þessa síðu um stjórnborðið með því að velja Útlit / Síðueiningar.

Nýjung á blog.is er að hægt er að skrifa athugasemdir við  myndir. Það fer fram á sama hátt og fyrir færslur, og er öll stjórnun sambærileg. Fyrir hvert myndaalum er hægt er að stilla hvort athugasemdir eru leyfðar. Sjá Myndir / Albúmalisti og Myndir / Athugasemdir.

Forsíða myndasvæðisins í stjórnborðinu, Myndir / Myndalisti, hefur verið bætt til muna. Þar sjást nú myndirnar sjálfar og hægt er að breyta upplýsingum um margar í einu, t.a.m. titlum mynda og hvernig þær raðast í albúm.


Áhugaverðar nýjungar fyrir blogg-notendur

Eftirfarandi nýjungar er nú að finna á blog.is.

1. Nú er hægt að tengja ýmsar gerðir skráa við bloggfærslur. Þar má nefna, myndskeið, hljóðskrár, Word-skjöl, Excel-skjöl o. s. frv.

2. Þá er hægt að loka bloggum með lykilorði. Einungis þeir sem hafa lykilorðið undir höndum geta lesið viðkomandi blogg.

3. Eigandi bloggsíðu getur fengið sendan tölvupóst þegar einhver skrifar athugasemd eða gestabókarfærslu.

4. Hægt er að bæta við allt að 10 nýjum myndum í myndaalbúm í einni aðgerð.

Allar upplýsingar um hvernig nýta megi þessar viðbætur er að finna í hjálpartextum fyrir Blogg og Myndir.


Vinsælt blogg

Bætt hefur verið við undirsíðunni "Vinsælt" á forsíðu blog.is.

Þar getur fólk séð allt að 400 vinsælustu bloggana á blog.is.


Lagfæringar á færsluritli

Formið til færsluskrifa hefur verið lagfært, svo það taki tillit til meginflokka. Hafi notandi valið meginflokk á bloggið sitt, þá er sá flokkur sjálfvalinn fyrir nýjar færslur.

Þó er hægt að breyta til og velja annan flokk þegar færsla er skrifuð. Það eina sem breyst hefur er að í staðinn fyrir að Bloggar sé ætíð sjálfvalinn sem færsluflokkur, þá geta notendur valið sjálfgefinn flokk fyrir hvert blogg.

Þannig geta þeir sem blogga aðallega í einum flokki valið hann í möguleikanum "Meginflokkur" undir Blogg→Stillingar, og er hann þá alltaf sjálfvalinn við skrif á færslum.


Þemaskjölun - og nýtt þema

Skjölun um þemasniðið á blog.is er loksins tilbúin og öllum aðgengileg. Einnig hefur verið búið til nýtt þema, sem þessi skjölun miðast að mestu við. Rembrandt heitir það og er sem stendur eina þemað í flokknum Menning og listir. Rembrandt er fyrsta þemað sem skilgreinir svokölluð stílbrigði, þ.e. söfn tengdra stillibreytna sem notandi getur valið með einum smelli (reyndar eru þeir strangt til tekið tveir, því að einn smell í viðbót þarf til að vista breytingarnar). Hægt er að prófa þessa virkni með því að fara á síðuna "Þemastillingar" undir "Útlit" í stjórnborðinu.

Við vonum að skjölunin hugnist væntanlegum þemahöfundum vel, en auðvitað er þeim velkomið að hafa samband við okkur ef þeir hafa einhverjar frekari spurningar þar að lútandi... 


Hjálpartextar

Nú er að finna hjálpartexta við allar aðgerðir sem boðið er upp á á stjórnborði blog.is. Fyrir aftan hverja aðgerð er spurningamerki sem hægt er að smella á til að fá yfirlit yfir aðgerðirnar og lýsingu á því hvernig framkvæma eigi aðgerðina.

Til að framkvæma viðkomandi aðgerð er síðan hægt að smella á tengil sem er að finna fyrir ofan hjálpartextann.


Vandamál við innskráningu

Í gær, miðvikudag, urðu notendur fyrir því að geta ekki skráð sig inn á bloggið sitt uppúr klukkan 18:00. Ástæðan var forritunarvilla sem var ekki löguð fyrr en uppúr hádegi í dag vegna frídagsins.

Við biðjumst afsökunar á óþægindunum og þökkum þeim sem létu vita af villunni í gegnum tölvupóst.


Flokkalistar

Til að einfalda fólki að finna nýja blogga um sín áhugamál og sjá fleiri blogga hjá okkur án þess að nota leitina þá höfum við bætt við Flokkalistum.

Flipi bættist við á forsíðunni sem gerir ykkur kleyft að sjá þar yfirlit yfir alla aðalflokkana og nýjustu færsluna í þeim flokki.

Þá er hægt að smella á flokkanöfnin og sjá þá lista í meginmáli með allt að 30 nýjustu færslurnar í þeim flokki. Hægra megin er svo hægt að sjá lista yfir 30 virkustu blogga sem hafa þennan flokk sem meginflokk.

Nú er komin enn önnur ástæða fyrir ykkur bloggarana að nýta ykkur flokkakerfið. Reynið þó að velja flokkanna samviskusamlega, því annað skapar bara gremju samferðamanna ykkar.

Páskakveðjur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband